Finnlandsferð 11. – 15.nóv

Teymi wpd á Íslandi ferðaðist ásamt sveitarstjórn Langanesbyggðar til norður Finnlands dagana 11-15. nóvember til að kynna sér vindorku og framleiðslu rafeldsneytis á svæðinu. Meðlimir teymis wpd í Þýskalandi, ásamt Harald Aspelund sendiherra Íslands í Finnlandi tóku þátt í dagskrá ferðarinnar.

Markmið ferðarinnar var að kynnast stefnu ríkis og sveitarfélaga í Finnlandi um uppbyggingu vindorkuvera og framleiðslu rafeldsneytis, auk þess að veita hópnum tækifæri til að fræðast um, og sjá vindorkuver í eigin persónu.

Farið var til Karhunnevankangas sem er eitt af vindorkuverum wpd í Finnlandi. Þar fékk hópurinn fræðslu um uppbyggingu og rekstur vindorkuversins og gafst tækifæri til að skoða vindmyllur í nálægð. Einnig öðlaðist hópurinn reynslu af hljóð- og sjónrænum áhrifum vindmylla á nærumhverfið. Á staðnum átti sveitarstjórn Langanesbyggðar áhugavert samtal við landeigendur sem deildu reynslu sinni af því að hafa vindmyllur á sínu landi. Í kjölfarið var farið til bæjarins Pyhäjoki þar sem fulltrúi sveitarfélagsins kynnti áhrif vindorkuvera á samfélagið og rekstur sveitarfélagsins.

Á öðrum degi ferðarinnar heimsótti hópurinn Business Oulu, þar sem metnaðarfull markmið borgarinnar í loftslagsmálum, orkuframleiðslu og nýsköpun voru kynnt. Sveitarstjórn Langanesbyggðar hitti einnig borgarstjórn Oulu og fékk kynningu frá Oulu Energia um orkuframleiðslu og áform þeirra til framleiðslu rafeldsneytis.

Ferðin var einstaklega áhugaverð og fræðandi, og teymi wpd á Íslandi þakkar sveitarstjórn Langanesbyggðar og Harald Aspelund sendiherra kærlega fyrir ferðina. Teymið er einnig afar þakklát fyrir góðar móttökur og gestrisni samstarfsfélaga okkar í Finnlandi.